Hvar á ég að byrja?

Heildarráðgjöf

Sú staðreynd að við hjá VEKTOR erum bæði arkitektar og tæknifræðingar þýðir að við getum leyst verkefnin með heildarlausn í huga. Við höldum utan um verkefnið frá byrjun, öflum tilskyldra leyfa og tryggjum að umsamin hönnunaráætlun standist.

Val á hönnuði

Það er reynsla hönnuðarins og hugmyndabrunnur hans sem tryggja þér bæði fallegt og notadrjúgt hús þar sem herbergjaskipan, útlit og efnisval passa saman í eina heild sem hæfir þínum kröfum. Hönnuðurinn þekkir kosti og galla mismunandi byggingarefna og reynsla hans og ráðgjöf sparar þér marga óþarfa snúninga.

Val af hönnuði er fyrst og fremst spurning um traust. Viðkomandi hönnuður verður að geta sameinað bæði óskir þínar og þarfir með sinni sérfræðiþekkingu.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því hvað það kostar að byggja hús en slíkt kostnaðarmat þarf að skoða í hverju tilviki fyrir sig. Reynsla og þekking hönnuðarins getur haft úrslitaáhrif á hvort þú færð það besta út úr þinni fjárfestingu.

Útlit og innri skipan hússins er í raun jafnvægið milli væntinga þinna og hugmynda hönnuðarins. Að sjálfsögðu hjálpar það til ef þú hefur ákveðnar hugmyndir, þær getur þú stutt með til dæmis með úrklippum, myndum eða skissum. Á hinn bóginn verður hönnuðurinn að hafa ákveðið frelsi til koma þeim í framkvæmd. Þannig næst fram hið sérstaka við þitt hús, það sem gerir það frábrugðið öðrum húsum.

Hugmyndir

Hafir þú ekki neinar sérstakar hugmyndir um húsið þitt, getur hönnuðurinn hjálpað þér við að spyrja réttu spurninganna. Punktaðu niður t.d. hve stórt húsið þarf að vera í fermetrum, hve stór á bílskúrinn að vera, hve mörg herbergi, hve stórt eldhús, hvernig byggingarefni og útlit, á að vera þakkantur eða ekki þakkantur o.s.frv. Einnig skaltu gera þér lauslega hugmynd um hvenær þú villt flytja inn.

 Út frá þessum hugmyndum hefur þú og hönnuðurinn ákveðinn grunn til að byggja á. Það er hér sem hönnuðurinn byrjar að skissa upp tillögur að húsinu. Eftir að þið hafið velt þessum tillögum á milli ykkar, nálgist þið smám saman sameiginlega niðurstöðu. 

Þegar hönnuðurinn hefur uppfyllt þínar óskir varðandi húsið, klárar hann þær teikningar sem þarf að leggja fyrir byggingarnefnd. Þetta er grunnmynd af húsinu, sneiðingar, afstöðumynd, byggingarlýsing og útlit í mælikvarða 1:100.  Við hér á Vektor sjáum sjálf um að útfylla alla pappíra varðandi fjölritun teikninga, byggingarleyfisumsókn og að koma teikningunum fyrir byggingarnefnd.  Þegar að byggingarnefndarteikningarnar hafa verið samþykktar færð þú útgefið byggingaleyfi og við hefjumst handa við að teikna allar vinnuteikningar.